Firefox vafrinn fékk ekki að halda fyrsta sætinu lengi yfir vinsælustu vafrana á Íslandi, en hann tók fram úr Internet Explorer í apríl/maí á þessu ári. Aðeins nokkrum mánuðum síðar tók Chrome fyrsta sætið og virðist ekkert ætla að láta það eftir.

Það að notendur velji Chrome er ákaflega jákvætt fyrir þá sem sjá um tölvuöryggi – og auðvitað notendur sjálfa. Chrome er þeim eiginleikum gæddur að hann sér sjálfur um að uppfæra sig. Hann athugar reglulega yfir daginn hvort ný útgáfa sé komin, sækir uppfærslu ef svo er og keyrir hana inn næst þegar notandinn lokar eða opnar vafranum.

Og eins og það sé ekki nóg, þá sér Chrome einnig um að sækja nýjustu útgáfur af Flash og PDF viðbótunum sem vafrinn notar – en gríðarleg aukning á misnotkun á þeim hugbúnaði hefur átt sér stað á síðustu árum – og ratar óæskilegur hugbúnaður inn á tölvur fólks þar í gegn í auknu mæli.